top of page

 

Harpa Katrín Gísladóttir

sálfræðingur/psychologist

 

Þakklæti eykur hamingju

Við eigum það öll sameiginlegt að vilja vera hamingjusöm. Við leggjum ýmislegt á okkur til að upplifa þetta eftirsótta ástand og í raun mætti færa rök fyrir því að allt sem við gerum sé á endanum í þeim tilgangi að auka eigin hamingju. Margir halda að hamingjan liggi í peningum eða völdum en sú virðist alls ekki raunin.

Rannsóknir á hamingju hafa sýnt að þó vissulega hafi þættir eins og efnahagsstaða, menntun, heilsa, stuðningsnet o.s.frv. áhrif á lífshamingju fólks vegi aðrar breytur þyngra. Viðhorf fólks til lífsins og tilverunnar virðist spá betur fyrir um hamingju en þessir veraldlegu þættir. Hér er um að ræða almennt viðhorf fólks til aðstæðna í kringum sig, hina margumtöluðu tilhneigingu til að sjá glasið sem annað hvort hálffullt eða hálftómt.

Þetta viðhorf er misjafnt á milli fólks og virðist það ráðast bæði af umhverfi og erfðum. Við fæðumst með ákveðna eiginleika en reynsla hefur einnig áhrif á mótun viðhorfs okkar. Sumir virðast fæðast bjartsýnir og jákvæðir að eðlisfari á meðan aðrir hafa allt á hornum sér og óheppnin virðist elta þá á röndum. Viðhorf er því betri mælikvarði á hamingju fólks heldur en aðstæður, auður eða völd.

Þakklæti eykur hamingju

Ein tegund viðhorfs sem hefur mikil áhrif á lífshamingju einstaklinga er þakklæti. Fólk sem er þakklátt fyrir það sem það hefur er hamingjusamara en aðrir. Þessi eiginleiki er að hluta til persónuleikabundinn; sumir eiga einfaldlega auðveldara með að koma auga á eitthvað til að vera þakklátir fyrir. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu viðfangsefni. Sem dæmi sé tekið leiddi ein þeirra í ljós að þeir sem voru þakklátir töldu sig búa við betri félagslegan stuðning, minni streitu og fundu fyrir minni depurð en þeir sem voru ekki eins þakklátir.

Það sem vekur athygli hér er að þegar orsakasambandið er skoðað sérstaklega, kemur í ljós að þakklæti hefur jákvæð áhrif á líðan og upplifun fólks á aðstæðum sínum en ekki öfugt. Þar af leiðandi virðast betri aðstæður ekki auka á þakklæti fólks. Þakklæti er því eiginleiki sem eykur hamingju án tillits til aðstæðna.

Þakklætisdagbók

Fólk er misjafnlega þakklátt en það er hægt að þjálfa þennan eiginleika með mjög einföldum aðferðum. Þakklætisdagbók er nokkuð sem hefur gefist vel til að bæta líðan. Þessi aðferð er mjög einföld og felur í sér að skrifa niður þrjú atriði í lok hvers dags, sem viðkomandi er þakklátur fyrir. Ótrúlega einfalt og svo rökrétt að manni finnst varla taka því að nefna það. Þetta hefur heilmikið verið rannsakað og áhrifin eru ótvíræð.

Í einni rannsókn skrifuðu þátttakendur fimm atriði á viku sem þeir voru þakklátir fyrir. Eftir 9 vikur var mælanlegur munur á líðan þeirra og það sem meira er, áhrifin voru söm sex mánuðum síðar. En hvernig getur svona einföld æfing haft svona mikil áhrif á hamingjuna?

Ein tilgátan byggist á þeirri staðreynd að heilinn er eins og vöðvi. Í hvert skipti sem þú æfir þakklæti ertu að þjálfa taugabrautir sem bera ábyrgð á því að finna ástæður til að vera hamingjusamur. Eftir því sem fleiri taugabrautir virkjast þeim mun sterkari verða áhrifin. Önnur skýring liggur í því að þegar við horfum markvisst á það sem við erum þakklát fyrir vekjum við upp þakklætistilfinningu sem hefur þau áhrif að við verðum næmari fyrir aðstæðum sem leiða til þakklætis. Smám saman getur þessi æfing því bætt lífið svo um munar.

bottom of page