Sálfræðimeðferð fyrir einstaklinga
Meðferð við sálrænum vanda eins og kvíða, þunglyndi eða lágu sjálfsmati fer fram í samtalsmeðferð á stofu. Sálfræðimeðferð getur líka falið í sér sálrænan stuðning til að takast á við flókin tímabil í lífinu, t.d. þegar fólk stendur frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, er að takst á við sorg og missi eða til að aðlagast breytingum. Þegar fólk hefur orðið fyrir áföllum getur þurft aðstoð til að vinna úr þeim. Markmið sálfræðimeðferðar er að hjálpa fólki að auka lífsgæði sín og lifa heilbrigðara og innihaldsríkara lífi. Til að ná þessu markmiði eru notaðar aðferðir sem hafa verið rannsakaðar og sýna árangur í meðhöndlun tiltekinna vandamála (sjá meðferðarnálganir neðar á síðunni).
Sambandsráðgjöf
Ástarsambönd geta verið flókin og í nánum samböndum geta vaknað upp erfiðar tilfinningar og viðbrögð. Í parameðferð er unnið með samskipti og tengsl með það fyrir augum að styrkja nánd og samstillingu, auka virðingu, taka á ágreiningi og/eða byggja upp traust svo sambandið geti orðið nærandi og hamingjuríkt.
Fjarviðtöl
Boðið er uppá sálfræðiviðtöl á netinu með Kara connect. Það er öruggur hugbúnaður þar sem öryggiskröfum persónuverndar varðandi persónuupplýsingar og gögn um skjólstæðinga er fylgt.
Meðferðarnálganir:
Hugræn atferlismeðferð HAM
Hugræn atferlismeðferð er það meðferðarform sem mest hefur verið rannsakað og sýnt hefur verið fram á góðan árangur. Þessi meðferð hefur verið notuð til að vinna á margskonar vanda, til að mynda hefur hún gefist vel gegn kvíða, fælni, þunglyndi, áfallastreituröskun og samskiptavanda svo fátt eitt sé nefnt. Hugmyndin sem liggur til grundvallar þessari meðferð er sú að ástæður tilfinningavanda liggi í hugsanamynstri, viðhorfum og óhjálplegri hegðun. Meðferð beinist því fyrst og fremst að hugsunum þar sem leitast er við að leiðrétta hugsanaskekkjur og óhjálpleg viðhorf. Ef ástæða þykir til er unnið að því að auka virkni og finna leiðir til að bæta uppbyggilegum og nærandi athöfnum inn í daglegt líf. Atferlisþátturinn felur þannig í sér að virkja hjálplega hegðun í staðinn fyrir þá óhjálplegu sem hefur neikvæð áhrif á líðan.
Í þessari meðferðarnálgun er athygli beint að núverandi aðstæðum en minni áhersla lögð á fortíð. Markmiðið er að fólk öðlist meira vald yfir sínu eigin lífi með hjálplegri hugsunum og hegðun. Heimaæfingar eru mikilvægur þáttur í hugrænni atferlismeðferð því hún gengur út á að breyta venjum og það krefst alltaf þjálfunar.
EMDR (Eye Movement Desensitisation and Reprocessing)
EMDR er heildstæð sálfræðileg meðferð sem þróuð var til að vinna úr afleiðingum áfalla. Meðferðin nýtir ýmsa þætti úr öðrum árangursríkum meðferðarformum eins og hugrænni atferlimeðferð og dýnamískum meðferðarformum auk þess sem hún býr yfir þáttum sem eru einstakir fyrir þessa meðferð.
Markmið EMDR er að vinna á langvarandi áhrifum erfiðra minninga. Eftir EMDR úrvinnslu valda minningarnar, sem áður fylgdi sársauki, ekki lengur vanlíðan. Viðhorfin breytast og líkamlegar upplifanir tengdar minningunni hverfa.
Uppruni
Oftast vinnur hugurinn sjálfkrafa úr erfiðri reynslu. Stór hluti þessarar úrvinnslu á sér stað á meðan við sofum, sérstaklega í draumsvefni. Talið er að hröðu augnhreyfingarnar sem fylgja draumsvefni okkar eigi þátt í úrvinnslu erfiðra minninga og upplifana. Bandaríski sálfræðingurinn Francine Shapiro þróaði EMDR árið 1987 þar sem hún nýtir þessa hugmynd í meðferð sem gefist hefur sérlega vel til að vinna úr áfallaminningum.
Fyrir hverja?
EMDR er fyrir fólk sem hefur orðið fyrir erfiðri reynslu, upplifað stór eða smá áföll sem trufla líf þess mánuðum og jafnvel árum saman eftir að atvikin áttu sér stað. Þessi aðferð hefur gefist vel til að vinna með afleiðingar ofbeldis, vanrækslu, náttúruhamfara og slysa.
Á heimasíðu EMDR á Íslandi má lesa meira um þessa meðferð.
ACT (Acceptance and Commitment Therapy)
ACT er gagnreynt meðferðarform sem flokkast undir þriðju bylgju atferlismeðferðarinnar. Þegar talað er um þessar bylgjur er átt við að í upphafi var atferlismeðferðin þar sem sjónum var fyrst og fremst beint að hegðun, í annarri bylgjunni var aukin áherslan lögð á hugræna þáttinn og í þeirri þriðju bættist svo núvitundin við.
Markmið ACT meðferðarinnar er að auka sálfræðilegan sveigjanleika (psychological flexibility) sem felur í sér frelsi til að velja viðbrögð við aðstæðum og áreiti í samræmi við þau gildi sem fólk vill lifa eftir. Mikilvægur hluti meðferðarinnar er því að átta sig á hvað skiptir máli í lífinu og hvernig lítur innihaldsríkt líf út í huga hvers og eins. Síðan er leitast við að greina þær innri hindranir (oftast í formi óhjálplegra hugsana og erfiðra tilfinninga) sem standa í veginum fyrir að viðkomandi sé að lifa slíku lífi. Aðferðum núvitundar, sáttar og sjálfsmildi er svo beitt til að takast á við þessar innri hindranir. Hér er gengið út frá því að óhjálplegar hugsanir og erfiðar tilfinningar séu ekki vandinn heldur samband okkar við þessi innri ferli sem hafi of mikið vægi í því hvernig við lifum lífinu.
Í ACT meðferð er markmiðið ekki að eyða neikvæðum hugsunum eða losna við óþægilegar tilfinningar og upplifanir heldur er lögð áhersla á að sættast við það að erfiðleikar eru óhjákvæmilegur hluti af lífinu. Að auki er unnið að því að bæta líðan einstaklingsins með því að vinna að jákvæðum breytingum sem samræmast lífsgildum hans og markmiðum.
Árið 2023 kom út íslensk þýðing á bókinni Happiness Trap eftir Russ Harris. Bókin nefnist Hamingjugildran og er í þýðingu Hugrúnar Sigurjónsdóttur. Mælt er með henni fyrir þau sem hafa áhuga á að kynna sér þessa nálgun betur.
IFS (Internal Family Systems therapy): Partavinna
Meðferðarnálgun sem Dr. Richard Schwartz kom fram með í kringum 1980. Síðan þá hefur aðferðin verið þróuð áfram og er nú vinsæll meðferðarkostur sem sálfræðingar og aðrir meðferðaraðlilar beita í auknum mæli. IFS er ekki sjúkdómsmiðuð nálgun en þrátt fyrir það er hún áhrifarík leið til að takast á við sálrænar áskoranir eins og kvíða, þunglyndi, áföll og samskiptavanda svo fátt eitt sé nefnt.
Samkvæmt hugmyndafræði IFS býr manneskjan yfir mörgum ólíkum hliðum eða pörtum sem starfa saman í innra kerfi einstaklingsins og hafa áhrif á þær ákvarðanir sem hann tekur og hvernig hann hegðar sér. Þessir partar samanstanda af varnarpörtum og særðum pörtum sem leiddir eru af svokölluðu kjarnasjálfi manneskjunnar.
Gengið er út frá því að það sé eðli hugans að vera margþættur og að það sé af hinu góða. En stundum verður ósamræmi á milli partanna sem getur birst í togstreitu og spennu þeirra á milli. Þessi innri togstreita getur skilað sér í vanlíðan og óhjálplegri hegðun eða stjórnleysi hjá fólki. Sem dæmi um það er þegar fólk framkvæmir síendurtekið hegðun sem er í mötsögn við þær ákvarðanir sem það hefur tekið og það á sjálft erfitt með að breyta þessu mynstri eða skilja hvað leiddi til hegðunarinnar. Þegar fólk er að upplifa slíkt stjórnleysi og á kannski erfitt með að skilja sig sjálft og ákvarðanirnar í lífinu getur partavinna verið hjálpleg.
Í þessari meðferð vinna meðferðaraðili og skjólstæðingur saman að því að skjólstæðingurinn kynnist sínum eigin pörtum og geti þaðan greint á milli þeirra, unnið með þeim og tengst betur kjarnasjálfinu sínu. Þetta er mjög áhrifarík meðferð sem miðar fyrst og fremst að því að auka sjálfsþekkingu og sjálfsskilning sem er afar valdeflandi og getur skilað sér í verulega bættum lífsgæðum. Hún er svokölluð "bottom-up" meðferðarnálgun sem þýðir að meðferðirn er ekki hefðbundin samtalsmeðferð heldur er unnið með þætti sem liggja meira undir yfirborði meðvitundarinnar. Athygli beinist þannig minna að vitsmunalegum og hugrænum skilningi á vandanum en meira að tilfinningalegum og líkamlegum skilningi og upplifunum.
IFS er ekki sjúkdómsmiðað módel en getur þó verið mjög hjálplegt til að takst á við klínísk vandamál. Hún flokkast undir gagnreynda meðferð sem þýðir að árangur hennar hefur verið studdur með rannsóknum. Hægt er að lesa um IFS hér.
Fyrir nánari upplýsingar er bent á þessar bækur eftir Richard Schwartz:
-
Introduction to Internal Family Systems
-
No Bad Parts: Healing Family Systems
-
You are the One You´ve Been Waiting for: Applying Internal Family Systems to Intimate Relationships
-
Internal Family Systems Skills Training Manual: Trauma-Informed Treatment for Anxiety, Depression, PTSD & Substance Abuse