top of page
  • Grey Facebook Icon
  • Grey Instagram Icon
  • Grey Twitter Icon

 

Harpa Katrín Gísladóttir

sálfræðingur/psychologist

 

Sálfræðimeðferð

Þegar fólk lendir í erfiðleikum í lífinu, t.d. áfalli eða tilfinningavanda getur verið ástæða til að leita sér hjálpar.  Sálfræðingar eru sérþjálfaðir til að takast á við tilfinningavanda (t.d. kvíða, depurð eða reiði) og hegðunarvanda (t.d. vanvirkni, samskiptavanda eða fíknihegðun).  Tilgangurinn með sálfræðimeðferð er að hjálpa fólki að auka lífsgæði sín og lifa heilbrigðara og innihaldsríkara lífi.  Til að ná þessu markmiði eru notaðar aðferðir sem hafa verið rannsakaðar og sýna árangur í meðhöndlun tiltekinna vandamála. Sálfræðingar leggja mikið uppúr þessum þætti, það er að nota vísindalega rannsakaðar aðferðir sem hafa sannarlega sýnt árangur. 

Sálfræðimeðferð byggist að miklu leyti upp á samtali á milli einstaklings og sálfræðingsins þar sem sálfræðingurinn leggur til ákveðna sérþekkingu og hlutlaust sjónarhorn og skapar þannig ramma og ákjósanlegar aðstæður. Meðferðin er þó ávallt samvinna og því mikilvægt að skjólstæðingurinn sé opinn, einlægur og tilbúinn til samstarfs. Meðferðarmarkmiðin eru þannig sett í sameiningu og framvinda meðferðar í stöðugri mótun. Á þann hátt er sálfræðimeðferð lifandi ferli því hún byggist upp á samvinnu á milli einstaklingsins og sálfræðingsins.

Vísbendingar um að sálfræðiaðstoð gæti hjálpað:

Ýmis einkenni geta verið til marks um að þörf sé að leita sér sálfræðiaðstoðar. Til dæmis ef:

  • Þú upplifir yfirþyrmandi depurð eða hjálparleysi sem virðist ekki ætla að líða hjá

  • Vandamál þín virðast ekki ætla að lagast þrátt fyrir að þú hafir reynt þitt besta til að takast á við þau og hjálp frá fjölskyldu og vinum gagnast ekki

  • Þú ert í vandræðum með að einbeita þér að vinnu eða getur illa framkvæmt dagleg verkefni

  • Þú hefur óhóflegar áhyggjur, býst alltaf við hinu versta eða ert upptrekkt(ur) og „á tánum" í daglegu lífi

  • Hegðun þín hefur skaðleg áhrif á þig eða aðra, td. neysla áfengis/lyfja eða ofbeldishegðun

 

Enginn hefur efni á að vanrækja heilsu sína og andleg heilsa er að sjálfsögðu ekki síður mikilvæg en líkamleg heilsa. Sálfræðiþjónusta er því miður ekki enn niðurgreidd af ríkinu en mörg stéttarfélög taka þátt í kostnaði.  Um að gera að athuga hvort og hvernig niðurgreiðslu er háttað hjá þínu stéttafélagi. 

Trúnaður

Samkvæmt siðareglum eru sálfræðingar bundnir trúnaði varðandi allar upplýsingar sem skjólstæðingur veitir. Það þýðir m.a. að sálfræðingur veitir ekki öðrum upplýsingar um hann eða það sem hann ræðir um nema með skriflegu leyfi viðkomandi skjólstæðings. Auk  þess virða sálfræðingar þennan trúnað á þann hátt að ef þeir hitta skjólstæðinga sína á förnum vegi heilsa þeir þeim ekki að fyrra bragði því það er val skjólstæðingsins hvort hann vill heilsa sínum sálfræðingi á viðkomandi stað og stund.  Undantekningar á trúnaðarskyldu eru gerðar þegar velferð barns, fatlaðs eða aldraðs einstaklings er í húfi, þá ber sálfræðingum að tilkynna það til yfirvalda (til dæmis Barnaverndar). Einnig ef grunur leikur á að skjólstæðingurinn eða annar aðili sé líklegur til að valda sjálfum sér eða öðrum skaða ber sálfræðingnum að hafa samband við einhvern tengdan viðkomandi, lækni, viðeigandi stofnun eða yfirvöld.

Hugræn atferlismeðferð HAM

Hugræn atferlismeðferð

Hugræn atferlismeðferð er það meðferðarform sem mest hefur verið rannsakað og sýnt hefur verið fram á góðan árangur.  Þessi meðferð hefur verið notuð til að vinna á margskonar vanda, til að mynda hefur hún gefist vel gegn kvíða, fælni, þunglyndi, áfallastreituröskun og samskiptavanda svo fátt eitt sé nefnt.  Hugmyndin sem liggur til grundvallar þessari meðferð er sú að ástæður tilfinningavanda liggi í hugsanamynstri, viðhorfum og óhjálplegri hegðun.  Meðferð beinist því fyrst og fremst að hugsunum þar sem leitast er við að leiðrétta hugsanaskekkjur og óhjálpleg viðhorf. Ef ástæða þykir til er unnið að því að auka virkni og finna leiðir til að bæta uppbyggilegum og nærandi athöfnum inn í daglegt líf.  Atferlisþátturinn felur þannig í sér að virkja hjálplega hegðun í staðinn fyrir þá óhjálplegu sem hefur neikvæð áhrif á líðan.

Í þessari meðferðarnálgun er athygli beint að núverandi aðstæðum en minni áhersla lögð á fortíð. Markmiðið er að fólk öðlist meira vald yfir sínu eigin lífi með hjálplegri hugsunum og hegðun. Heimaæfingar eru mikilvægur þáttur í hugrænni atferlismeðferð því hún gengur út á að breyta venjum og það krefst alltaf þjálfunar.

EMDR (Eye Movement Desensitisation and Reprocessing)

EMDR

EMDR er heildstæð sálfræðileg meðferð sem þróuð var til að vinna úr afleiðingum áfalla.  Meðferðin nýtir ýmsa þætti úr öðrum árangursríkum meðferðarformum eins og hugrænni atferlimeðferð og dýnamískum meðferðarformum auk þess sem hún býr yfir þáttum sem eru einstakir fyrir þessa meðferð.

Markmið EMDR er að vinna á langvarandi áhrifum erfiðra minninga. Eftir EMDR úrvinnslu valda minningarnar, sem áður fylgdi sársauki, ekki lengur vanlíðan. Viðhorfin breytast og líkamlegar upplifanir tengdar minningunni hverfa.

 

Uppruni

Oftast vinnur hugurinn sjálfkrafa úr erfiðri reynslu.  Stór hluti þessarar úrvinnslu á sér stað á meðan við sofum, sérstaklega í draumsvefni. Talið er að hröðu augnhreyfingarnar sem fylgja draumsvefni okkar eigi þátt í úrvinnslu erfiðra minninga og upplifana. Bandaríski sálfræðingurinn Francine Shapiro þróaði EMDR árið 1987 þar sem hún nýtir þessa hugmynd í meðferð sem gefist hefur sérlega vel til að vinna úr áfallaminningum. 

 

Fyrir hverja?

EMDR er fyrir fólk sem hefur orðið fyrir erfiðri reynslu, upplifað stór eða smá áföll sem trufla líf þess mánuðum og jafnvel árum saman eftir að atvikin áttu sér stað. Þessi aðferð hefur gefist vel til að vinna með afleiðingar ofbeldis, vanrækslu, náttúruhamfara og slysa. 

 

Á heimasíðu EMDR á Íslandi má lesa meira um þessa meðferð. 

bottom of page