top of page

 

Harpa Katrín Gísladóttir

sálfræðingur/psychologist

 

Ertu fangi þinna eigin hugsana?

Hugsanir eru mikilvægar. Í búddisma er talað um að við séum það sem við hugsum og það er mikill sannleikur í því. Að minnsta kosti er ljóst að líðan okkar veltur að stórum hluta á þeim hugsunum sem hrærast um í kollinum á okkur. Þess vegna eru hugsanir það fyrsta sem skoðað er þegar unnið er að því að bæta líðan. Um hvað fjalla hugsanirnar og hvernig er samband okkar við þær?

Mörg sálræn vandamál liggja í hugsunum því hugsanir og tilfinningar eru beintengdar. Sterkasta einkenni kvíða eru hugsanir um framtíðina og allt það hræðilega sem mögulega getur gerst þar. Það geta verið áhyggjur um frammistöðu, áhyggjur af því að lenda í slysi, eða mistakast eitthvað sem skiptir miklu máli að gangi upp. Þessar hugsanir geta orðið þráhyggjukenndar og haft slæmar afleiðingar í för með sér eins og svefnvanda og forðun áskorana. Í þunglyndi eru hugsanirnar einnig stór hluti vandans en þær eru aðeins annars eðlis. Þær liggja mun meira í fortíðinni, sá sem er þunglyndur getur verið að velta sér uppúr hinu liðna og oft er eftirsjá ríkjandi. Sjálfsásökun getur verið sterk og niðurrífandi hugsanir um eigin frammistöðu og eiginleika. Þessar hugsanir verða oft tilefni til að draga sig í hlé og hætta að reyna. Uppgjöf og vonleysi fylgir þessum hugsunum þegar þær eru orðnar yfirgnæfandi. Þegar vandinn liggur í reiði eru hugsanir um að hafa orðið fyrir óréttlæti ríkjandi. Þessar hugsanir fjalla oft um þá trú að við njótum ekki þeirrar virðingar sem við teljum okkur eiga skilið. Við teljum fólk viljandi vera að gera eitthvað á okkar hlut.

Fyrsta skrefið til að bæta líðan er alltaf að skoða þessar hugsanir og velta fyrir sér hvort þar séu einhverjar skekkjur sem gætu skýrt vanlíðanina. Svo er mikilvægt að skoða sambandið við þessar hugsanir. Þá er spurt um áhrif þeirra, hversu mikið vægi hafa þær og hve mikill tími fer í vangaveltur. Hversu mikið stjórna hugsanirnar ferðinni? Sá sem er farinn að forðast aðstæður sem áður veittu honum ánægju vegna kvíða setur of mikið vægi í hugsanir sínar. Einnig sá sem sér ekki lengur tilgang í að hitta vini sína eða er í stöðugum átökum hvar sem hann kemur. Slík hegðun ber vott um að skekktar hugsanir séu að ráða ferðinni. Og þá þarf að gera eitthvað.

Ein leið er að færa athyglina frá þessum hugsunum og yfir á lífið sem er að gerast nákvæmlega á þessari stundu. Því nákvæmlega núna er ég ekki að falla á prófinu sem sett er í næstu viku og nákvæmlega núna er enginn ósanngjarn við mig jafnvel þó einhver hafi verið það í fyrradag. Nákvæmlega núna er því engin ástæða fyrir mig til að líða illa. Nákvæmlega núna sit ég á kaffihúsi og sötra á góðum kaffibolla. Það er gott en þegar hugurinn er ekki á staðnum næ ég ekki að njóta þessarar stundar. Ég er að bregðast við allt öðru en því sem er raunverulega að gerast. Ég er að bregðast við myndum eða orðum í kollinum á mér sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum nákvæmlega á þessari stundu. Núvitund er öflug leið til að leiðrétta þetta.

Er hvað er núvitund? Núvitund er ástand sem felur í sér að veita því athygli sem er að gerast á þessari stundu án þessa að leggja á það dóm. Þá er athyglin færð frá hugsunum, sem oft fjalla um eitthvað allt annað en líðandi stund, og yfir á það sem er að gerast nákvæmlega núna. Á þann hátt færð þú frí frá hugsununum og frelsi til að bregðast við því sem er að gerast hér og nú í staðinn fyrir því sem er að gerast inni í huganum.

Tökum sem dæmi konu sem þjáist í hvert skipti sem hún fer í sund. Það sem gerist í kollinum á henni þegar hún gengur eftir sundlaugarbakkanum gæti verið eitthvað á þessa leið. Hún hugsar um hvað öllum hljóti að finnast hún feit og við það upplifir hún skömm og depurð. Hún sér sjálfa sig fyrir sér óörugga og illa útlítandi gangandi eftir bakkanum. Hún veltir fyrir sér hvort hún muni hitta einhvern sem hún þekki og hversu vandræðalegt það muni verða. Hún finnur kvíðann læsast um sig sem verður til þess að hún þráir ekkert heitar en að komast út úr þessum sársaukafullu aðstæðum. Þessi kona er svo föst í hugsunum sínum að hún tekur ekkert eftir umhverfinu. Hún sér ekki sólina og öll hlæjandi börnin og hún sér heldur ekki öll vinveittu andlitin á fólki sem er þarna til að njóta sín en ekki til að dæma hana. Ef til vill hættir hún við að fara ofan í laugina og fer þannig á mis við stund sem hefur alla burði til að verða góð og nærandi stund. Í þessu dæmi er konan að bregðast við hugsunum sínum en ekki aðstæðum. Því þarna í lauginni er náttúrulega engin raunveruleg hætta á ferðum. Ímyndaðu þér hvað hefði gerst ef þessi kona hefði fært athyglina frá hugsunum sínum og yfir á það sem raunverulega var að gerast í kringum hana.

Maðurinn býr yfir mikilfenglegum huga sem getur skapað heilu sögurnar, ferðast um í tíma og velt upp hugmyndum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Þetta er stórkostlegur hæfileiki sem við vildum alls ekki missa. En hugurinn getur unnið gegn okkur eins og dæmið hér að ofan sýnir. Með því að iðka núvitundaræfingar reglulega er hægt að ná betri stjórn á huganum sem skilar sér í betri líðan og færni til að njóta lífsins og alls þess sem það hefur upp á að bjóða. Því hugsanir eru þrátt fyrir allt bara hugsanir og við ráðum sjálf hvort og hvernig við bregðumst við þeim.

bottom of page