top of page

 

Harpa Katrín Gísladóttir

sálfræðingur/psychologist

 

Áhrif streitu á athyglina

Í dag virðist sem önnur hver manneskja tali um að hún sé með athyglisbrest. Fólk lýsir einkennum eins og einbeitingarleysi, erfiðleikum við að forgangsraða verkefnum og skipuleggja sig. Margir tala um tilhneigingu til að gleyma ótrúlegustu hlutum og tína hlutum eins og síma, lyklum og þess háttar. Þessi einkenni hljóma sannarlega eins og athyglisbrestur en getur verið að allt þetta fólk uppfylli greiningarskilmerki fyrir þessa röskun? Það hlýtur að teljast hæpið þar sem rannsóknir sýna að tíðnin er í kringum 4,4% hjá fullorðnum og aðeins hærri hjá börnum. En hvað gæti skýrt allan þennan athyglisbrest?

Byrjum á að

skoða hvernig daglegt líf gengur fyrir sig hjá nútímafólki í dag. Flestir vinna úti og álagið á vinnustöðum getur verið mikið. Oft mjög krefjandi verkefni þar sem ríkir mikil samkeppni. Það sem tekur við heima er oft ekki rólegra. Til þess að komast yfir allt þetta höfum við brugðið á það ráð að nýta allan lausan tíma eins vel og við mögulega getum og helst reyna að sinna mörgum verkefnum í einu.

Snjallsíminn hefur komið eins og himnasending inn í þennan heim og maður spyr sig hvernig var þetta eiginlega hægt fyrir tilkomu hans? Síminn er orðinn mikilvægasta verkfæri lífs okkar. Með hans hjálp getum við nýtt hverja lausa stund til að sinna hinum ýmsu verkum. Einn helsti eiginleiki símans er að við erum alltaf tengd við umheiminn, getum fylgst með öllu sem er að gerast á þeirri stundu sem það gerist. Hvort sem það er tölvupóstur, textaskilaboð eða vinur skiptir um prófílmynd á facebook. Því síminn áreitir okkur stöðugt allan sólarhringinn.

Við erum stöðugt að „múltítaska” þ.e sinna mörgum verkum í einu. Við svörum tölvupóstum á meðan við horfum á börnin á æfingu, eigum í rafrænum samskiptum á fundum, vöfrum á netinu á sama tíma og við horfum á sjónvarpið og svona mætti lengi telja. En þegar betur er að gáð er ekki alskostar rétt að tala um að við séum að gera marga hluti í einu. Því staðreyndin er sú að við erum að færa athyglina hratt frá einu verki yfir á annað. Þessi stöðuga tilfærsla á athygli kostar orku auk þess sem við missum af fullt af upplýsingingum. Það er því svo að þegar við teljum okkur vera að koma miklu í verk með því að sinna mörgum verkum í einu erum við í raun að afkasta minna en við gerðum ef við værum að vinna að einu í verki í senn. Flæði streituhormónsins kortisóls eykst við þetta álag sem getur haft neikvæð áhrif á hugræna virkni, valdið óskýrri og óskipulagðri hugsun. Á sama tíma skiljum við ekkert í því hvað við eigum erfitt með einbeitingu og hvað við erum orðin gleymin. Staðreyndin er sú að hugurinn er á yfirsnúningi. Hann ræður ekki við meira.

Það er sannarlega mikið að gera og margt sem við viljum sinna. En vandinn liggur ekki þar. Vandinn liggur í því að hugurinn fær aldrei frið, hann nær aldrei að endurnæra sig og hlaða batteríin. Við fyllum upp í allar auðar stundir sem við annars fengjum yfir daginn með símanum. Það eru takmörk fyrir öllu því upplýsingaflæði sem heilinn nær að vinna úr á hverjum tíma og það er ástæða til að ætla að áreitið sé oft á tíðum langt umfram úrvinnslugetu hugans. Það er því ekkert skrítið þó önnur hver manneskja í svona samfélagi sýni einkenni athyglisbrests. Þetta er afleiðing nútímasamfélags sem hellir yfir okkur upplýsingum og áreiti í magni sem aldrei hefur áður þekkst í sögunni og gerir kröfu til okkar um að vera ávallt aðgengileg. Þetta ástand er í eðli sínu ólíkt hinni læknisfræðilegu skýringu á athyglisbresti eða ADD (attention deficit disorder) sem hefur sterkan erfðaþátt og er best meðhöndlaður með lyfjum. Þessi einkenni eiga rætur að rekja til umhverfisáhrifa og þarf að meðhöndla á annan hátt. Við þurfum að koma til móts við okkur og næra heilann svo hann geti betur höndlað allt þetta álag. Það er nefnilega svo að heilinn í okkur þarf, rétt eins og síminn, að hlaða sig reglulega. Stöðug notkun hvort sem er á netinu eða við annað gengur hratt á orkuforðann.

Leiðir til að endurnæra hugann:

  • Góður svefn og heilsusamlegt mataræði er mikilvægt til að við getum betur tekist á við álag daglegs lífs.

  • Hreyfing. Þegar við hreyfum okkur eykst flæði taugaboðefna eins og serotóníns, dópamíns og noradrenalíns og flæði streituhormónsins kortisóls minnkar. Hreyfing hefur því bein áhrif á streitu og virkar eins og endurnæring fyrir heilann.

  • Náttúran hefur endurnærandi áhrif á okkur og rannsóknir í umhverfissálfræði hafa sýnt að við hlöðum batteríin mun betur í grænni náttúru en steinsteiptu umhverfi. Það er því gott að taka göngu í náttúrunni eða á grænum svæðum borgarinnar.

  • Hvíla hugann með því að gleyma sér í dagdraumum, lesa skáldsögu eða leggja sig yfir daginn.

  • Sinna einu verki í einu og slökkva á símanum á meðan. Þetta á við um verkefni og einnig samverustundir með fólki. Vertu á staðnum og einbeittu þér að því sem þú ert að gera.

  • Hitta fólk. Samskipti við fólk augliti til auglits er mikilvægt fyrir okkur. Þetta þarf að hafa í huga nú þegar samskipti fara að miklu leyti fram rafrænt. Að hitta fólk, lenda á spjalli og hlæja endurnærir hugann.

  • Skoðaðu tölvupóstinn þrisvar á dag og ekkert þar á milli.

  • Hugleiða. Rannsóknir hafa sýnt að núvitundaræfingar á hverjum degi hafa mjög endurnærandi áhrif á heilann.

Pistillinn birtist í Glamour í maí 2015

bottom of page