top of page

 

Harpa Katrín Gísladóttir

sálfræðingur/psychologist

 

Hvenær er þörf á sálfræðimeðferð?

Þegar fólk lendir í erfiðleikum í lífinu, t.d. áfalli eða tilfinningavanda getur verið ástæða til að leita sér hjálpar.  Sálfræðingar eru sérþjálfaðir til að takast á við tilfinningavanda (t.d. kvíða, depurð eða reiði) og hegðunarvanda (t.d. vanvirkni, samskiptavanda eða fíknihegðun).  Tilgangurinn með sálfræðimeðferð er að hjálpa fólki að auka lífsgæði sín og lifa heilbrigðara og innihaldsríkara lífi.  Til að ná þessu markmiði eru notaðar aðferðir sem hafa verið rannsakaðar og sýna árangur í meðhöndlun tiltekinna vandamála. Sálfræðingar leggja mikið uppúr þessum þætti, það er að nota vísindalega rannsakaðar aðferðir sem hafa sannarlega sýnt árangur. 

Sálfræðimeðferð byggist að miklu leyti upp á samtali á milli einstaklings og sálfræðingsins þar sem sálfræðingurinn leggur til ákveðna sérþekkingu og hlutlaust sjónarhorn og skapar þannig ramma og ákjósanlegar aðstæður. Meðferðin er þó ávallt samvinna og því mikilvægt að skjólstæðingurinn sé opinn, einlægur og tilbúinn til samstarfs. Meðferðarmarkmiðin eru þannig sett í sameiningu og framvinda meðferðar í stöðugri mótun. Á þann hátt er sálfræðimeðferð lifandi ferli því hún byggist upp á samvinnu á milli einstaklingsins og sálfræðingsins.

 

Vísbendingar um að sálfræðiaðstoð gæti hjálpað:

 

Ýmis einkenni geta verið til marks um að þörf sé að leita sér sálfræðiaðstoðar. Til dæmis ef:

  • Þú upplifir yfirþyrmandi depurð eða hjálparleysi sem virðist ekki ætla að líða hjá

  • Vandamál þín virðast ekki ætla að lagast þrátt fyrir að þú hafir reynt þitt besta til að takast á við þau og hjálp frá fjölskyldu og vinum gagnast ekki

  • Þú ert í vandræðum með að einbeita þér að vinnu eða getur illa framkvæmt dagleg verkefni

  • Þú hefur óhóflegar áhyggjur, býst alltaf við hinu versta eða ert upptrekkt(ur) og „á tánum" í daglegu lífi

  • Hegðun þín hefur skaðleg áhrif á þig eða aðra, td. neysla áfengis/lyfja eða ofbeldishegðun

 

Enginn hefur efni á að vanrækja heilsu sína og andleg heilsa er að sjálfsögðu ekki síður mikilvæg en líkamleg heilsa. Sálfræðiþjónusta er því miður ekki enn niðurgreidd af ríkinu en mörg stéttarfélög taka þátt í kostnaði.  Um að gera að athuga hvort og hvernig niðurgreiðslu er háttað hjá þínu stéttafélagi. 

 

Hvernig fer sálfræðimeðferð fram?

 

Fyrsti tíminn:

Hver meðferðarstund varir í 50 mínútur og til að sá tími nýtist sem best er gott að vera aðeins búin að undirbúa sig fyrir fyrsta tímann.  Vera búin að velta fyrir sér hvaða ástæður helstar liggja fyrir því að þú sért að leita þér hjálpar, hvenær vandinn hófst o.s.frv.  Það er líka gott að vera með einhverja hugmynd um hvaða væntingar þú hefur um meðferð og hvað þú vilt helst fá út úr henni.  Einnig praktískar upplýsingar eins og nafn á lyfjum sem þú ert að taka og upplýsingar um fyrri meðferðir ef það á við.

Fyrsti tíminn fer í það að fara yfir bakgrunnsupplýsingar og sögu. Sálfræðingurinn mun því óhjákvæmilega spyrja margra spurninga til að byrja með. Sumar spurningarnar gætu snert viðikvæma strengi sem þér finnst erfitt að tala um. Þá er gott að hafa í huga að þú mátt alltaf segja að þú sért ekki tilbúinn að tala um eitthvað ákveðið málefni.  Þú þarft aldrei að gera neitt sem þú ert ekki tilbúinn til að gera. Eftir því sem meðferðinni vindur fram eykst væntanlega traustið og meðferðarsambandið styrkist. Mikilvægt er að meta árangur meðferðar nokkuð reglulega og er það bæði gert í gegnum samtal og einnig geta verið lögð próf fyrir sem meta styrk einkennanna sem ætlunin er að vinna með í meðferðinni. Þetta geta verið próf sem meta hugsanir, tilfinningar eða hegðun.

 

Framvindan:

Í byrjun meðferðar mun sálfræðingurinn hjálpa þér að átta þig á vandamálum þínum, greina þau og velta upp mögulegum lausnum eða meðferðarmarkmiðum. Síðan munuð þið færast yfir á næsta stig meðferðar en þar munuð þið vinna í sameiningu að því að finna ný möguleg hugsanamynstur, hegðun eða viðbrögð við tilfinningum. Aðferðin fer eftir því hvaða meðferðarleið er farin, hvort unnið sé með EMDR eða hugrænni atferlismeðferð. Vinnan gæti falið í sér úrvinnslu gamalla áfalla í tímanum, verkefni á milli tíma eða æfingu nýrrar hegðun. Þegar líða tekur á meðferð metið þið árangur í sameiningu og hvort ástæða sé til að breyta eða bæta meðferðarmarkmiðin. 

Stundum stinga sálfræðingar upp á að tengja annað fólk við meðferðina, t.d. maka, foreldra eða blanda hópmeðferð inn í meðferð.

 

Til að hámarka árangur:

Sálfræðimeðferð er virk samvinna milli þín og sálfræðingsins. Margar rannsóknir hafa sýnt að meðferðarsambandið hefur mikið að segja um árangur meðferðarinnar. Meðferðarsambandið verður til þegar sálfræðingur og skjólstæðingur vinna saman að markmiðum skjólstæðingsins. Það er því mikilvægt að skjólstæðingar séu virkir í meðferðinni og séu tilbúinir að skuldbinda sig til að leggja sig fram. Taktu þátt í að setja þér markmið og tímaáætlun. Lestu þig til um vandamálið því það er hjálplegt að skilja eðli þess. Biddu sálfræðinginn þinn um að mæla með bókum um efnið. Æfðu þig heima. Hegðunar- og hugsanabreytingar eru krefjandi og taka tíma. Reyndu því ávallt að hafa hugann við meðferðarmarkmiðið og nota hvert tækifæri til að æfa það. Ef erfiðleikar koma upp á milli tíma skaltu leggja þá á minnið og tala við sálfræðinginn um það í næsta tíma á eftir. Á þennan hátt ertu bæði að flýta fyrir árangri af meðferðinni og einnig að hámarka hann. Einnig er líklegra að árangurinn viðhaldist lengur. 

 

Trúnaður

Samkvæmt siðareglum eru sálfræðingar bundnir trúnaði varðandi allar upplýsingar sem skjólstæðingur veitir. Það þýðir m.a. að sálfræðingur veitir ekki öðrum upplýsingar um hann eða það sem hann ræðir um nema með skriflegu leyfi viðkomandi skjólstæðings. Auk  þess virða sálfræðingar þennan trúnað á þann hátt að ef þeir hitta skjólstæðinga sína á förnum vegi heilsa þeir þeim ekki að fyrra bragði því það er val skjólstæðingsins hvort hann vill heilsa sínum sálfræðingi á viðkomandi stað og stund.  Undantekningar á trúnaðarskyldu eru gerðar þegar velferð barns, fatlaðs eða aldraðs einstaklings er í húfi, þá ber sálfræðingum að tilkynna það til yfirvalda (til dæmis Barnaverndar). Einnig ef grunur leikur á að skjólstæðingurinn eða annar aðili sé líklegur til að valda sjálfum sér eða öðrum skaða ber sálfræðingnum að hafa samband við einhvern tengdan viðkomandi, lækni, viðeigandi stofnun eða yfirvöld.

Comments


bottom of page